Frelsisflokkurinn og baráttan um Ísland

Frelsisflokkurinn tekur stöðu með Íslandi og íslenskri framtíð í baráttunni um Ísland. Styður þjóðríkjahugsjónina en hafnar öfgum alþjóðasinna.

Hinn nýstofnaði Frelsisflokkur ætlar sér erindi í íslenskum stjórnmálum.

Pólitískt svar við þeim miklu umbrotum sem nú eiga sér stað í stjórnmálum víðsvegar um heim. Líka hér heima á Íslandi, þótt hinar pólitísku breytingar séu seinna á ferðinni hér en t.d. í nágrannalöndunum. Þar sem taumlaus alþjóðavæðing og alþjóðahyggja hefur kallað fram eðlilegt pólitískt andsvar.

Andsvar m.a. gegn nánast óheftri fjölmenningarhyggju (menningarmarxisma) ásamt tilheyrandi alþjóðavæðingu (globalisma) og íslamsvæðingu sem hinn „félagssinnaði“ rétttrúnaður á Vesturlöndum hefur kallað fram síðustu áratugi, án neins lýðræðislegs umboðs! Með hörmulegum afleiðingum þ.á m. í birtingarmyndum ótal mannskæðra hryðjuverka sem eru framin í nafni íslams.

Þess vegna hafnar m.a Frelsisflokkurinn íslamsvæðingu Evrópu og að moskur séu byggðar á Íslandi, en slík bönn eru víða í gildi erlendis í dag af öryggisástæðum.

Frelsisflokkur með nýjar áherslur

Þann 31. ágúst sl. skrifaði Gunnlaugur Ingvarson, formaður Frelsisflokksins, góða og ítarlega grein hér í Morgunblaðið um hinn nýstofnaða flokk. Þar kemur m.a. fram að Frelsisflokkurinn er með nýjar og ferskar pólitískar áherslur í fjölmörgum málum borið saman við aðra flokka.

Þannig verður þjóðfrelsið og einstaklingsfrelsið aldrei sundurskilið, þar sem þjóðríkjahugsjónin er lögð til grundvallar. Af þessu leiðir að flokkurinn er með mjög skýra þjóðlega stefnu í Evrópumálum, öryggis- og varnarmálum, og málefnum hælisleitenda þar sem nánast galopnum landamærum á grundvelli nýrra útlendingalaga til viðbótar við Schengen-ruglið er hafnað! Sem þegar er farið að kosta þjóðina hátt á annan tug milljarða á ári meðan mikilvægir innviðir þjóðfélagsins eru fjársveltir og þúsundir Íslendinga eru nánast á götunni.

Þjóð sem hefur ekki full og óskoruð yfirráð yfir sínum landamærum getur ekki talist frjáls og fullvalda þjóð! Svo einfalt er það!

Flokkur með þjóðfélagslega ábyrgð

Eins og þjóðhyggjuflokkarnir í Evrópu leggur Frelsisflokkurinn ríka áherslu á þjóðfélagslega ábyrgð. Eða eins og segir í grunnstefnu hans þá ber flokkurinn „jafnrétti þegnanna fyrir brjósti og að fátækt eigi ekki að líðast á Íslandi. Málefni öryrkja og aldraðra verði ætíð í fyrirrúmi. Íslenskir þegnar eiga ætíð að njóta forgangs í íslensku samfélagi“.

Þá vill flokkurinn vinda ofan af hinu opinbera bákni, en stærð þess er í engu samræmi við fámenni þjóðarinnar. Boðuð er uppstokkun og algjör grundvallarbreyting á hinu illa rekna lífeyrissjóðakerfi, afnámi verðtryggingar, gjörbreytt fjármálakerfi sbr. hugmyndina um svokallað þjóðpeningakerfi, nýtt og betra húsnæðiskerfi þar sem fólki verði gert mun auðveldara að eignast eigið húsnæði, úrbætur í mennta- og heilbrigðismálum, svo eitthvað sé nefnt.

Og í takt við frelsishugsjónina vill flokkurinn aukið frelsi í fiskveiðum, ekki síst í strandveiðum. Að helstu auðlindir Íslands verði í þjóðareigu (t.d. fiskiauðlindin) svo og að helstu og mikilvægustu samfélagsfyrirtækin, s.s Landsvirkjun, orku- og vatnsfyrirtæki, verði í opinberri eigu.

Baráttan um Ísland

Eins og vikið var að í upphafi takast nú á tvö ólík pólitísk öfl á heimsvísu.

Alþjóðavæðingin á grundvelli alþjóðahyggju er kemur verst niður á almenningi, einskonar No Borders-hugmyndafræði, þar sem öll landamæri eru talin óæskileg, sbr. fjórfrelsi ESB annars vegar, og hins vegar þjóðríkjahugsjónin þar sem fullveldi þjóða og þjóðfrelsi er sett í öndvegi.

Hér á Íslandi þekkjum við hið fyrrnefnda. Pólitísk öfl sem skipulega grafa undan íslenskri þjóðarvitund, þjóðlegum gildum og kristnum viðhorfum. Planta sér um allt samfélagið og víla ekki fyrir sér ólýðræðisleg vinnubrögð, því tilgangurinn helgar meðalið. Hinn pólitíski rétttrúnaður sem oftar en ekki er mjög vinstrisinnaður setur sig á hinn háa hest nánast til að dæma lifendur og dauða. Hvað má ekki segja og ekki gera! Og þeir sem fara ekki eftir hinum pólitíska rétttrúnaði eru útskúfaðir og bannfærðir með tilheyrandi blótsyrðum.

Nýjasta bólfesta þessa pólitíska rétttrúnaðar virðist vera sjálf lögreglan, svo þversagnakennt sem það er. Með sérstakri hatursorðræðudeild undir yfirstjórn fv. varaþingmanns sósíalista. Sem minnir mann helst á Stasi, austur-þýsku leynilögregluna forðum undir stjórn kommúnista. Sem undantekningarlaust hefur farið afturreka með kærur sínar frammi fyrir dómsstólum, enda enn málfrelsi á Íslandi. En sýnir þó hversu langt er komið í hinum pólitíska rétttrúnaði hérlendis án teljandi mótspyrnu.

Frelsisflokkurinn tekur stöðu með Íslandi og íslenskri framtíð í baráttunni um Ísland. Styður þjóðríkjahugsjónina en hafnar og berst gegn öfgum alþjóðasinna um landamæralaus ríki og taumlausri alþjóðavæðingu í þágu fárra, sbr. George Soros.

Já, Frelsisflokkurinn hvetur alla þjóðholla Íslendinga til að koma til liðs við sig í baráttunni um Ísland og fyrir bættum kjörum íslensks almennings. Áfram Ísland!

Guðmundur Jónas Kristjánsson

Höfundur er bókhaldari og situr í flokksstjórn Frelsisflokksins.