Frelsisflokkur til varnar og sóknar

Þegar svo aumlega er komið í íslenskum stjórnmálum hlýtur að koma fram nýtt þjóðlegt stjórnmálaafl sem segir hingað og ekki lengra!

Þegar Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir hafa fallist í pólitíska faðma og myndað ríkisstjórn undir forystu róttæks sósíalista, í fyrsta skiptið í stjórnmálasögu Íslands, bregður eðlilega mörgum í brún. Já, hvað er að gerast í íslenskum stjórnmálum? spyr margur sig þegar pólitísk umpólun verður með slíkum afgerandi hætti, og nú hefur gerst. Því þessi staða og þróun er þvert á það sem er að gerast í stjórnmálun á Vesturlöndum og í helstu nágrannalöndum okkar að undanförnu.

Sú staðreynd að þrjú æðstu embætti íslenska lýðveldisins skipa nú allt róttækir vinstrisinnar hlýtur að segja sína sögu. Þannig skipar mjög alþjóðasinnaður sósíaldemókrati forsetaembættið, róttækur sósíalisti forsætisráðherraembættið, og kommúnisti af gamla skólanum stól forseta Alþingis. Halló Íslendingar!

Þvert á pólitíska þróun

Þessi einstaka lykilstaða vinstrimanna í æðstu embættum þjóðarinnar í dag, og ekki bara í landsstjórn og á Bessastöðum, heldur líka í sjálfri höfuðborginni þar sem borgarstjórinn er líka sósíaldemókrati, hlýtur að eiga sér eða kalla á skýringar. – Því þetta er þvert á þá pólitísku þróun sem nú á sér stað víðast erlendis. Þar sem vinstrimennska er á undahaldi ásamt fjölmenningarmarxisma og pólitískum rétttrúnaði, gagnvart framsæknum þjóðhyggjuöflum, nú síðast í þingkosningunum í Þýskalandi og þar áður í Austurríki þar sem Frelsisflokkurinn þar bar góðan sigur úr býtum.

Varðstaða Sjálfstæðisflokksins brást

Sá stjórnmálaflokkur sem í upphafi 20. aldar var stofnaður af borgaralegum öflum gegn vinstrimennsku og uppgangi kommúnisma, já, fyrir þjóðlegum gildum og viðhorfum, stóð í ístaðinu framan af öldinni. En eftir að hafa tapað fyrir hræðslubandalagi vinstrimanna Í Reykjavík, R-listandum, og að Davíð Oddsson yfirgaf skútuna, fór verulega að halla undan fæti hjá flokknum.

Varðstaða Sjálfstæðisflokksins brást svo endanlega við hrunið mikla 2008 og hefur hann ekki borið sitt barr síðan. – Í raun hefur verið átakanlegt að horfa á hvernig hann hefur borist með straumi vinstrimennskunnar og hins pólitíska rétttrúnaðar og það svo að fjölmenningarmarxisminn blómstrar nú sem aldrei fyrr.

Það hefur sem sagt gerst í fyrsta sinn að leiðtogi róttækra sósíalista hefur verið krýndur sem forsætisráðherra lýðveldisins í boði Sjálfstæðisflokksins. Minna mátti það ekki vera! – Þar með er engin varðstaða eða viðspyrna lengur gegn vinstriöflunum! Ekki einu sinni varðandi „No borders“-öfgaöflin, um nánast galopin landamæri og svo síðast varðandi öfgastefnu Vinstri grænna í umhverfismálum. Jafnvel erlendir vogunarsjóðir skulu nú enn og aftur fá náð og miskunn.

Frelsisflokkurinn til varnar og sóknar

Þegar svo aumlega er komið í íslenskum stjórnmálum hlýtur að koma fram nýtt þjóðlegt stjórnmálaafl sem segir hingað og ekki lengra! Flokkur með nýjar áherslur og nýja framtíðarsýn. Flokkur byggður á þjóðríkjahugsjóninni, fullveldi og frelsi þjóða og einstaklinga. Flokkur sem vill koma til varnar og sóknar íslenskri þjóðmenningu og tungu. Já, íslenskri þjóð í eigin landi! Ekki síst til hjálpar húsnæðislausum Íslendingum, m.a. í Laugardalnum.

Flokkur sem slær í takt við ný evrópsk stjórnmál og evrópsk þjóðhyggjuöfl í dag og hafnar þess vegna blindri alþjóðavæðingu, EES, og galopnum landamærum sbr. Schengen, og skipulegrar íslamsvæðingu Evrópu og Íslands.

Frelsisflokkurinn býður fram

Því miður tókst hinum nýja Frelsisflokki ekki að bjóða fram í síðustu alþingiskosningum sökum tímaskorts. En býður nú fram í komandi borgar- og sveitarstjórnarkosningum í vor. Þess vegna ákallar hann hin þjóðlegu borgaralegu öfl og aðra þjóðholla Íslendinga að koma nú til liðs við flokkinn.

Já, baráttan um Ísland er hafin! Frelsisflokkurinn ætlar að vera þar til varnar og sóknar! – Áfram Ísland!

Guðmundur Jónas Kristjánsson

Höfundur er bókhaldari og situr í flokksstjórn Frelsisflokksins.